Saga skólans

Saga skólahalds á Tálknafirði

(tekið af eldri heimasíðu Tálknafjarðarskóla)

Nú er liðin um ein öld síðan skólahald hófst í Tálknafirði í sérstöku skólahúsnæði á Bakka 1910 og Sveinseyri 1911. Haldið hefur verðið upp á aldarafmæli skólans með margvíslegum hætti, m.a. með veglegri árshátíð vorið 2010 þar sem minnst var upphafs skólahalds og afmælishátíð vorið 2011 með sýningu á verkum nemenda í tengslum við árshátíð skólans. Nú er í undirbúningi sýning um sögu Tálknafjarðar og skólahalds þar sem opnuð verður í tengslum við árshátíð 30. mars 2012.

Miklu skemmra er síðan regluleg leikskólastarfsemi hófst á Tálknafirði og enn á eftir að skrá sögu tónlistarfræðslu á staðnum en tónlistarskólinn hefur starfað um árabil.

Leikskólinn flytur sig um set

Í ágúst 2012 sameinaðust leik- og grunnskólinn undir einu þaki eftir að hafa starfað aðskilið þrátt fyrir að stjórnunarlega hafi þeir verið sameinaðir fáum árum áður. Fyrra húsnæði leikskólans, Vindheimar, átti sér merka sögu enda byggt af kvenfélagi Tálknafjarðar fyrir leikskólastarfið. var orðið mjög lélegt og auk þess var aðstaða ekki lengur fullnægjandi fyrir starfsemina. Því var tekið til bragðs að flytja leikskólann inn í lítið notað húsnæði grunnskólans og það standsett fyrir yngstu börnin. Áfram verður síðan unnið að því að þróa aðstöðu þeirra bæði innan og utan skólans sem og samvinnu milli skólastiga.

Nýjung - þróunarskóli í samvinnu við Hjallastefnuna

Vorið 2012 leitaði sveitarstjórn og skólanefnd eftir samvinnu við menntafélagið Hjallastefnunnar ehf. um samvinnu um þróun og rekstur hins sameinaða leik- og grunnskóla. Samningur var gerður milli aðila og veitti Menntamálaráðuneytið skólanum svonefnt þróunarskólaleyfi til þriggja ára eða frá hausti 20012 til vors 2015. Stendur þessi samvinna nú yfir og verður þróunarferlið endurmetið af öllum aðilum enda um mikla nýjung að ræða, þ.e. að sveitarfélag leiti til sjáfstætt starfandi menntafyrirtækis við rekstur eina skóla sveitarfélagsins.